23.01.2021 00:08

Sveitalífið......................

 

Það var kuldalegt í Hlíðinni þennan daginn og veturinn sannarlega við völd.

Sólin reyndi að gera gott úr þessu öllu saman og yljaði í stuttan tíma.

Ef að þið skoðið myndin vel sjáið þið að frúin var að reka hross en stalst til að taka mynd í leiðinni.

Hrossin voru kát með að fá föstudagsfjörið sitt og tóku vel á því á leiðinni út eftir og undan vindi.

En róðurinn var aðeins þyngri á leiðinni heim með vindinn í fangið og nokkra kílómetra að baki.

Já á fullri ferð því þau voru nú ekkert að spara sig þegar frelsið var framundan.

Við rekum alltaf hrossin í tvennu lagi þ.e.a.s geldinga sér og hryssur sér.

Stóðhestarnir eru síðan teymdir nú eða stundum reknir. 

Allir eiga það sameiginlegt að njóta þess að spretta úr spori og viðra sig.

 

 

Þó svo að það sé gott að geta rekið á svona vetrardögum þá er líka dásamlegt að hafa góða inniaðstöðu.

Þar inni er logn, blíða og sumar þó svo að vindurinn hamist fyrir utan.

Þessi mynd er tekin þegar að Kolrassa mín var að taka fyrstu sporin undir manni.

Mig grunar að þau séu bara asskoti ánægð hvort með annað Mummi og hún.

Kolrassa er undan Spuna frá Vestukoti og Kolskör minni, hún er afrakstur frábærrar afmælisgjafar.

Ljónheppin að hafa átt stórafmæli þarna um árið frúin og eiga svona frændfólk og vini.

Já það er líf og fjör í hesthúsinu og nóg af spennandi verkefnum þar.

 

 

Smalahundakvöldin halda áfram og þarna má sjá þá sem að mættu á kvöld númer tvö.

Næsta smalahundakvöld verður svo n.k þriðjudagskvöld.

Ef að þið viljið einhverjar frekari upplýsingar um þennan viðburð þá hikið ekki við að hafa samband.

 

 

Af sauðfjárbúskapnum er það að frétta að nú er allt með kyrrum kjörum, frið og spekt.

Við erum búin að taka hrútana frá kindunum og setja þá í frí fram að næsta fengitíma.

Þeir eru í þeim hópi sem eru hreint ekki sáttir við styttingu ,,vinnuvikunnar,, og mótmæltu harðlega þegar þeir voru skikkaði í frí.

Á meðfylgjandi mynd er hrúturinn Valberg frá Stóra Vatnshorni og ærnar að njóta síðust samverustundanna þennan veturinn.

Næsti stórviðburður í sauðfjárstússinu er rúningur á snoði og síðan sónarskoðun vegna fóstutalningar.

Ærnar hafa ekki oft verið orðnar svona loðnar á þessum tíma.

Þær minna óneitanlega á okkur hin þegar ekki mátti hafa hárgreiðslustofur opnar fyrr í vetur.

Nema þeim er slétt sama og velta sér ekkert uppúr því þó eitt og eitt grátt hár stingi upp kollinum.

Spá meira í það hvort ekki sé kominn gjafatími.

 

 

Hrútnum Móstjarna voru skaffaðar 40 eðalkollur sem sérvaldar voru fyrir hann.

Það fannst honum ekki nóg og ákvað að líta aðeins á þær hyrndu hinumegin við milligjöriðna.

Hann eins og Valberg vinur hans urðu samt þann 21 janúar að sætta sig við styttingu á vinnuskyldu.

Já það er ekkert grín að vera hrútur.

 

 

Talandi um vinnuskyldu..........................

Þessi harðduglegi hefðarköttur er kominn á samning og tekur það mjög alvarlega.

Hann er sem sagt orðinn áhrifavaldur og á barmi heimsfrægðar.

Á milli þess sem hann sefur fast og laust auglýsir hann Furuflís af miklu kappi.

Já það er ekki um að ræða styttingu vinnuviku í hans fjöruga lífi.