26.08.2009 23:05

Töðugjöd skítmokstur og sónar


Vá nú var blíða í Hlíðinni í dag 15 stiga hiti logn og smá úði öðru hvoru frábært útivistarveður fyrir menn og skepnur.

Það voru eiginlega hálfgerð töðugjöld hér í Hlíðinni í dag þó er ennþá verið að velta vöngum yfir því hvort eigi að slá há á nokkrum stykkjum. Það verður nú að segjast eins og er að heyskapurinn hefur nú oft gengið betur. Endalausar bilanir voru að stríða  okkur og bið eftir varahlutum var löng og ströng. Ég hef sterkan grun um að einhverjir púkar hafi verið hér á sveimi til að tefja fyrir heyskapnum, vona bara að þeir fari að snúa sér að einhverju öðru og jákvæðara verkefni.
En allt hafðist þetta og eitthvað vel á annað þúsund rúllur komnar í stabbann.

Mummi byrjaði að moka út úr haughúsinu undir fjárhúsunum í dag, þannig að hann hefur verið í djúpum skít í orðsins fyllstu merkingu. Nú skal dreift með stæl næstu dagana. Það styttis í að hann fari norður að Hólum í skólann og ég er farin að halda að hann ætli að klára næstum ,,allt,, áður enn hann fer. Ekki slæmt fyrir okkur...............

Í gær var sónað og sónað og sónað.................allavega var hún Edda dýralæknir búin að vera að frá því klukkan 6 í gærmorgun þegar hún kom til okkar kl 24.oo í gær. En allt gekk eins og í sögu og um kl 2 var hún búin að upplýsa allan sannleikan sem var í boði hjá hryssunum hér á bæ. Ég verð að játa að ég var nú orðin syfjuð þó að ég hafi ekki vaknað kl 6 en Edda var eldhress og hreint ekkert syfjuleg að sjá.
Byrjað var að sóna í Hólslandi þar sem að Sporður frá Bergi var búinn að sinna miklum fjölda af hryssum. Útkoman var mjög góð og næstum allar hryssurnar fylfullar.
Frá okkur voru tvær hryssur hjá honum þær Sunna og Karún mín, báðar vor fylfullar.
Svo var líka vinkona mín hún Venus frá Magnússkógum hjá honum og að sjálfsögðu fylfull.
Hér heima sónuðust Skeifa gamla og Upplyfting báðar fylfullar við Gosa og Tign aftur við Sparisjóði auk þess dömur frá öðrum eigendum sem ekki verða taldar upp hér.
Ég er afar ánægð með að Tign er fengin með Sparisjóði því ég er svo ánægð með hann Kost minn þið munið litla stóðhestinn sem ég sýndi ykkur myndir af um daginn.
Ein dama bættist við hjá Sparisjóði í gær.

Trilla litla Gaums og Skútudóttir dafnar vel og nú fer að styttast í að hún fari í sitt fyrsta ferðalag á ævinni. Það verður sennilega á föstudaginn sem hún breggður undir sig betri fætinum eða dekkjunum og leggur í hann. Nánar frá því síðar.......

Ég fékk fyrirspurn um það afhverju væru ekki fleiri myndir af Sparisjóði inná síðunni.
Á því eru tvær haldbærar skýringar önnur er sú að hann verður ekki nægilega oft á vegi mínum þegar ég er vopnuð myndavél. Hinsvegar er hann eins og eigandinn ferkar lítið fyrir að vera þeim megin við myndavélina nema að vel yfirveguðu ráði. Það er ekki gaman að lenda inná mynd ógreiddur, nývaknaður, hrukkóttur eða illa fyrirkallaður.
Svo má ekki gleyma því að stundum geta verið kíló á þvælingi sem hreinlega myndast ekki vel nema þau séu rétt staðsett.