Færslur: 2020 Apríl

19.04.2020 21:31

Hversdags...........er gott.

 

Hér í Hlíðinni gegnur lífið sinn vana gang með tamningum, þjálfun og öðru hversdagslegu stússi.

Já hversdagsleikinn er bara fínn og við í sveitinni upplifum þessa skrítnu tíma sennilega allt öðruvísi en aðrir.

Við höldum okkar striki gefum kindum (sauðburðarhlé um þessar mundir) og vinnum í tamningum og þjálfun  allan daginn.

Það er í raun og veru allt eins og venjulega nema það koma engir gestir og við förum lítið sem ekkert af bæ.

Auðvitað fylgjumst við vel með öllum fréttum og vonum það besta eins og allir aðrir. 

En stóri munurinn er að við höfum nóg að gera og getum ferðast aðeins meira daglega en bara innan húss.

Við getum farið í reiðtúr, labbað eða bara hvað sem er sem okkur dettur í hug hér heima í Hlíðinni.

Það er nefninlega þannig að hversdagsleikinn er stórlega vanmetinn upplifun.

Þar sem að vinnan er áhugamál og áhugamálið vinnan þar er gaman. 

Við erum með drjúgan hóp af hrossum í tamningu og þjálfun bæði frá okkur og öðrum.

Það er alltaf jafn spennandi að spá í efnilegum hrossum, hvernig þau koma út í tamningu og hvernig þau þróast.

Koma þau til með að hæfa því hlutverki sem þeim er ætlað ? Það er ætíð stóra spurningin.

Eins er gaman að spá í ætterni og einnig að kynnast gripum undan misunandi hrossum.

Þennan vetur höfum við verið einstaklega heppin með skemmtileg hross á öllum tamningastigum.

Bara svona fyrir þá sem eru á sama áhugasviði þá erum við að vinna með m.a. hross undan eftirtöldum hestum:

Skýr frá Skálakoti, Loka frá Selfossi, Spuna frá Vestukoti, Arion frá Eystra Fróðholti, Konsert frá Hofi, Ölnir frá Akranesi, Álfarni frá Syðri Gegnsihólum, Blæ frá Torfunesi, Ási Eyfjörð, Þyt frá Neðra Seli, Gaumi frá Aðsholtshjáleigu, Auði frá Lundum, Ramma frá Búlandi, Aðli frá Nýja Bæ, Þyt frá Skáney, Sóloni frá Skáney og Aldri frá Brautarholti.

Bara svo að eitthvað sé nefnt.

Hvað er uppáhalds ?? Það getur nú breyst dag frá degi og eins hvern ætlar þú að spyrja ??

Við erum jú fjögur að ríða út.

Gott veður, góður hestur, góður félagsskapur...................hvað er betra til að gleyma veiruvesininu ?

Já við höfum það gott í sveitinni.

Á meðfylgjandi mynd er augað hans Kafteins Ölnirs og Skútusonar, myndina tók vinkona okkar Christine Slawik.

Þetta auga er vörumerkið hans fullt af trausti, heiðarleika og ánægju. 

Já Kafteinn er uppáhalds.

 

 

 

13.04.2020 21:44

Vorið.

 

Vorið er komið, já ég er alveg viss það er komið og vorið verður alveg ljómandi gott.

Kannski er þetta óskhyggja en það er allt í lagi því að þetta er óskhyggja sem gefur vellíðan.

 

Álftirnar flugu hér yfir í gær, ísinn er byrjaður að hörfa af vatninu og fyrstu lömbin fædd.

Já fyrstu lömbin voru snemma á ferðinni þetta árið en það var aldeilis ekki á dagskránni.

Fjórtán ær bornar og 33 lömb fædd nú í byrjun apríl. 

Það er óthætt að segja að frjálsar ástir hafi blómstrað hér sem aldrei fyrr og frjósemin í meira lagi á þessum tíma.

Húsfreyjan sem jafnan fagnar fyrstu lömbum hvers árs er alveg saklaus af því að hafa haft eitthvað með þetta að gera.

Sönnun þess er augljós.............. af þessum 33 lömbum er ekkert mislitt. Það er ekki í anda freyjunnar.

Seinni hálfleikur sauðburðar hér á bæ hefst svo viku af maí og þá verður vonandi komið enn betra vor.

Flestir sauðfjárbændur hafa hægt um sig og halda sig heima við enda ekkert grín að fá óboðna veirusýkingu um sauðburðinn.

 

Páskarnir  hér voru afar ólíkir því sem verið hafa í a.m.k hálfa öld hér í Hlíðinni.

Fámennt, engir gestir og frekar lítið um að vera fyrir utan daglegt stúss.

Hér hefur alltaf verið hátíð stórfjölskyldunnar, gestagangur og mikið fjör.

Síðustu ár hafa litlir páskagestir kvartað sáran vegna þess að engin lömb hafa verið fædd.

Núna var hinsvegar líf og fjör í fjárhúsunum en litlu gestirnir fjærri góðu gamni.

 

En allir höfðu það gott og nutu lífsins þrátt fyrir allt.

 

Á meðfylgjandi mynd er hann Spaði Gosason að njóta fyrstu vorvindanna.

 

 

03.04.2020 23:04

Heppni Hellir.

 

Það eru ekki allir dagar eins í sveitinni, ónei ekki aldeilis...................

Suma daga glymja setningar eins og ,, mörg er búmanns raunin,,  í kollinum.

Og það ekki að ástæðulausu.

Á fallegum degi sem bauð uppá blíðu og rólegheita veður var tekið eftirlits drónaflug um nágrennið.

Leiðindaveður hafði verið í nokkra daga með roki og snjókomu, veðri sem allir fá leið á bæði skeppnur og menn.

Kom þá í ljós dökkur díll sem ekki passaði við landslagið, við nánari skoðun kom í ljós að hestur hafið farið sér að voða.

Þegar þetta vonda veður hafði gengið yfir var órói í hrossunum og þau farið að þvælast þar sem ekki er heppilegt að vera á ferðinni undir svona kringumstæðum.

Djúpur skurður á svæði sem að hrossi ekki þekkja er stór hættulegur undir þessum kringumstæðum. 

Saklaus snjóbreiða með holrúmi undir sem ekki heldur hesti, hvað þá hesti í töluverðri yfirvigt.

Það var að sjálfsögðu rokið af stað og  kannað hvað hægt væri að gera í stöðunni.

Þegar á staðinn var komið kom í ljós að þetta var hann Hellir stór og stæðilegur geldingur.

Ekki litu fyrstu fréttir vel út og tvísýnt um að hesturinn næðist á lífi úr þessum hremmingum.

 

 

Hellir var alveg við það að gefast upp og leit hreint ekki út fyrir að lifa þetta af.

Gaf frá sér horkennileg hljóð og virtist alveg bugðaður, skorðaður í snjónum með rennandi vatn undir fótum.

 

 

Holan var ansi djúp og alveg greinilegt að hann hefði ekki komist upp af sjálfsdáðu.

Eins og sést á þessari mynd hafði hann brotist um og reynt að hafa sig uppúr holunni.

 

 

Það er alltaf dásamlegt að eiga góða nágranna og ekki síst þegar eitthvað svona gerist.

Hraunholtabændur voru fljótir að bregðast við og koma okkur til hjálpar.

Takk Sigga og Ásberg fyrir skjót viðbrögð og alla aðstoðina.

 

 

Strappar og bönd voru sett undir Hellir til að traktorinn gæti hjálpað til við að hífa hann upp.

 

 

Lífsþrótturinn var heldur lítill á þessari stundu og ekki alveg ljóst hvernig ástandið á hestinum væri.

 

 

Þarna er kappinn kominn á loft og allt gengur vel en það er alveg ljóst að það veitti ekki af hestöflunum í Claas.

 

 

Holan er ljót og niðri í henni rennur vatn sem hefur nú ekki gert dvölina þarna neitt betri.

 

 

Þarna er Hellir kominn uppúr og alveg ótrúlega hress en með sár á báðum afturfótum.

Já hann hefur heldur betur tekið á því við það að reyna komasta upp af sjálfsdáðum.

Skúli teymdi hann heim í hesthús sem er dágóður spölur, þar var honum hjúkrað og haft sambandi við Tryggva dýralæknir.

Eftir meðhöndlun og dekur í nokkra daga var Hellir orðinn samur á ný. Sárin alveg grónin og hann allur að jafna sig eftir hrakfarirnar.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvað gerst hefði ef að Hellir hefði ekki fundist og verið þarna eina nótt í viðbót.

Nóttina eftir gerði rok, snjókomu og sliddu sem klárlega hefðu verið bannvæn fyrir hest í þessum aðstæðum.

Já hann Hellir var ljónheppinn það er alveg ljóst.

Nú nýtur hann lífsins inní hesthúsi og undirbýr sig fyrir komandi verkefni sem úrvals reiðhestur með magnaða lífsreynslu.

Hellir heppni er hestur dagsins.

Húrra fyrir Helli.

 

 

 

03.04.2020 21:47

Tæknin gerir gott.

 

Það er skrítnir tímar sem við lifum og ótal margt sem hefur breyst á örstuttum tíma.

Margt sem var sjálfsagt fyrir svona fjórum vikum er ekki í boði í dag.

Við höfum t.d ekki getað heimsótt hann Sveinbjörn frænda okkar en hann dvelur nú á Brákarhlíð í Borgarnesi.

Eins og á öðrum hjúkrunar og dvalarheimilum er heimsóknarbann.

Þó svo að það sé erfitt fyrir alla að geta ekki hitt fólkið sitt þá er þetta nauðsynlegt til að vernda heimilisfólk og starfsmenn.

Sveinbjörn tekur þessu með miklu æðruleysi heyrir bara reglulega í okkur í síma og fær stöðuna á búskapnum.

Já og fréttir af litla frænda sínum sem er í miklu uppáhaldi ,,hvað er að frétta af stráksa,, ? spyr hann gjarnan.

Það var því vel við hæfi að það væri litli frændinn sem að hann helst vildi sjá og heyra í þegar honum var boðið að nýta tæknina og hringja á skype.

Kvenfélag Hálsasveitar gaf nýlega spjaldtölvur til að íbúar á Brákarhlíð gætu haft möguleika á að sjá og heyra í sínum nánustu í samkomubanninu.

Það þarf ekki að fjölyrða um það að  þetta hefur svo sannarlega slegið í gegn og gefið margar ánægju stundir.

 

 

Dömurnar á Brákarhlíð aðstoðuðu Sveinbjörn við að ná sambandi við okkur hér í Hlíðinni.

Á meðfylgjandi myndum má sjá þá feðga spjalla við frændann og skemmta honum.

Sá litli var nývaknaður og til í allt þegar hringingin kom, fór á kostum og gerði allar kúnstir sem hann kunni.

Sveinbjörn var steinhissa á þessari ofur tækni og mjög kátur með að geta spjallað við okkur í mynd.

Já og meira segja tekið úr snjóalög og fleira hér í kring.

 

 

Það er mikils virði að vita að vel er hugsað um fólkið sitt á svona tímum.

Þessi hringing var gleðileg ekki bara fyrir hann Sveinbjörn sem að við heyrum í flesta daga heldur okkur öll.

Mikið reynir á alla undir þeim kringumstæðum sem nú eru og ekki síst starfsfólk á dvalar og hjúkrunarheimilum.

Þá er svo mikilvægt að geta gert sem flest sem léttir lund og auðveldar fólki lífið.

Takk Kvenfélag Hálsasveitar, takk starfsfólk Brákarhlíðar þið eruð ómetanleg.

  • 1