13.04.2020 21:44

Vorið.

 

Vorið er komið, já ég er alveg viss það er komið og vorið verður alveg ljómandi gott.

Kannski er þetta óskhyggja en það er allt í lagi því að þetta er óskhyggja sem gefur vellíðan.

 

Álftirnar flugu hér yfir í gær, ísinn er byrjaður að hörfa af vatninu og fyrstu lömbin fædd.

Já fyrstu lömbin voru snemma á ferðinni þetta árið en það var aldeilis ekki á dagskránni.

Fjórtán ær bornar og 33 lömb fædd nú í byrjun apríl. 

Það er óthætt að segja að frjálsar ástir hafi blómstrað hér sem aldrei fyrr og frjósemin í meira lagi á þessum tíma.

Húsfreyjan sem jafnan fagnar fyrstu lömbum hvers árs er alveg saklaus af því að hafa haft eitthvað með þetta að gera.

Sönnun þess er augljós.............. af þessum 33 lömbum er ekkert mislitt. Það er ekki í anda freyjunnar.

Seinni hálfleikur sauðburðar hér á bæ hefst svo viku af maí og þá verður vonandi komið enn betra vor.

Flestir sauðfjárbændur hafa hægt um sig og halda sig heima við enda ekkert grín að fá óboðna veirusýkingu um sauðburðinn.

 

Páskarnir  hér voru afar ólíkir því sem verið hafa í a.m.k hálfa öld hér í Hlíðinni.

Fámennt, engir gestir og frekar lítið um að vera fyrir utan daglegt stúss.

Hér hefur alltaf verið hátíð stórfjölskyldunnar, gestagangur og mikið fjör.

Síðustu ár hafa litlir páskagestir kvartað sáran vegna þess að engin lömb hafa verið fædd.

Núna var hinsvegar líf og fjör í fjárhúsunum en litlu gestirnir fjærri góðu gamni.

 

En allir höfðu það gott og nutu lífsins þrátt fyrir allt.

 

Á meðfylgjandi mynd er hann Spaði Gosason að njóta fyrstu vorvindanna.