23.04.2010 21:06

Gleðilegt sumar kæru vinir.

Sumarið hefur heilsað okkur með fallegu veðri en ekki hefur hitastigið nú verið sumarlegt en sannarlega er ég hæðst ánægð með það að vetur og sumar skulu hafa frosið saman. Hjátrúafull kellan.
Hún amma mín sem að ég vitna svo oft í hefði verið ánægð með þetta veðurlag á þessum dögum. Ég hef ekki ennþá kynnst neinum sem að hefur haldið jafn mikið uppá sumardaginn fyrsta eins og hún gerði blessunin. Ég held að þessi dagur hafi verið meiri hátíðisdagur í hennar huga en sjálf  jólahátíðin.
Á sumardaginn fyrsta átti að vakna snemma því það gaf til kynna að maður yrði duglegur og kæmi miklu í verk á nýju sumri. Æskilegt var að það væri sólskin eftir að vetur og sumar höfðu frosið saman það boðaði birtu og hamingju á nýju sumri.
Matur og kaffi áttu að vera með hátíðlegasta móti og að sjálfsögðu átti að klæða sig upp fyrir sumarið. Og messan já ekki má nú gleyma henni, amma hlustaði alltaf á sumarmessuna í útvarpinu og þá voru læti illa séð.
Margar vísur kenndi amma mér um vorið og helstu vorboðana fuglana, ég held meira að segja að ég hafi rétt verið farin að tala þegar hún kenndi mér aðalsumarvísuna.

Nú er sumar,
gleðjist gumar,
gaman er í dag.
Brosir veröld víða,
veðurlagsins blíða.
Eykur yndishag,
eykur yndishag.

Látum spretta,
sporin létta.
Spræka fáka nú.
Eftir sitji engi,
örvar vif og drengi.
Sumarskemmtun sú,
sumarskemmtun sú.

Ég kann ekki fleiri erindi og held að þetta sé eftir Steingrím Thorsteinsson.

Mér finnst gaman að rifja þetta upp og þá sérstaklega af því að ég er fædd á sumardaginn fyrsta og átti afmæli núna á sumardaginn fyrsta:)

En að öðru............nokkur undanfarin ár hef ég farið að  Miðfossum og dæmt skemmtilegt hestamót sem hefur verið haldið síðasta vertardag og á sumardaginn fyrsta.
Þetta er mót sem haldið er í tengslum við Skeifudag nemenda og er virkilega skemmtilegt.
Ég sá marga góða hesta og knapa sem að öttu kappi af miklum móð, bara svona til að nefna eitthvað þá var ég mjög hrifin af hesti undan Pegasus frá Skyggni og einnig af hryssu undan Hrynjanda frá Hrepphólum. Er ekki með nöfnin alveg á hreinu svo að það er best að nefna þau ekki.


Reynir Aðalsteinsson og nemendur við setninguna.



Og þarna eru verðlaun veitt.........Gunnarsbikar, Reynisbikar, Morgunblaðsskeifan, Eiðfaxaverðlaun og reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna.
Innilega til hamingju krakkar þetta var flott hjá ykkur.

Þegar heim kom eftir mótið á Miðfossum komu góðir gestir til okkar, hvorki meira né minna en eitt ,,stykki,, Búnaðarfélag Eyrarsveitar.
Skemmtilegur hópur sem var í árlegu ferðalagi sínu að skoða bændur í örðum sveitum.
Takk fyrir komuna.



Léleg myndataka dæmist á húsfreyjuna en það var ekki með vilja gert að mismuna fólki með því að hafa suma sólarmegin en aðra í skugganum.

Dagurinn í dag var alveg draumur fyrir tamningafólk blíða, gott reiðfæri og já góðir hestar mitt í þessari jákvæðni. Nánar um það síðar.