11.01.2011 20:58

Garrinn á góðum degi



Það er yndislegt að fá sér blund í sólinni sem léttir lund og bætir geð.............
Á myndinni er Kalsi litli sem er undan Kolskör og Aldri frá Brautarholti í draumalandinu.

Norðan garrinn er enn til staðar hér í Hlíðinni og lítið lát á skemmtilegheitunum.
En það sem ekki drepur það herðir hefur stundum verði haft á orði hér á bæ.........og dugað vel.

Nú hefur Hrútaskráin vikið af náttborðinu fyrir stórum bunka af stóðhestablöðum sem skoðuð eru af miklum móð þessa dagana. Alveg undarlegt hvað maður nennir alltaf að skoða þau aftur og aftur. Nokkrir stóðhestar vekja meiri væntingar en aðrir og alltaf er spennandi að fylgjast með hvaða hestar verða hér í nágreninu við okkur í sumar.
Bíð eftir listanum á hrossvest.

Ég var að skoða mótaskrá LH og sá að hún er orðin þétt setin fyrir keppnistímabilið sem verður greinilega spennandi. Eins eru félögin farið að auglýsa spennandi dagskrá fyrir veturinn með margvíslegum viðburðum.
Nú er allt komið í fullan gang við undirbúning á 40 ára afmælishátíð FT sem haldin verður í Víðidalnum 19 febrúar n.k. Takið daginn frá.
Nánar um það síðar hér á síðunni en ég get þó upplýst að fjöldinn allur af okkar færustu reiðkennurum og tamningamönnum munu verða með sýnikennslur og fyrirlestra.

Já ekki má nú gleyma fréttum úr sauðfjárhorninu góða.
Allt var með kyrrum kjörum í dag svo að vonandi eru þessi læti að baki og frekari aðgerða ekki þörf. Hrússi hafði hægt um sig og lét eins og allar elskurnar hans væru óaðfinnanlegar, svona líka ljúfur og góður þessi elska.
En svona til öryggis hef ég vellt orsökunum aðeins fyrir mér í dag og fengið álit hjá til þess bærum aðilum. Nú hef ég helst hallast að því að þessar geðsveiflur stafi af svefntruflunum, óreglulegum matartímum og enn og aftur af aldurstengdum pirringi.
Já það er ekki grín að vera kall á þessum síðustu og verstu tímum.