08.09.2014 20:50

Þessir góðu dagar


Nú líður að leitum svo það er tímabært að líta upp og gjóa augunum til fjalla. 
Á þessari mynd sjáið þið bergganga sem nefnast Þríhellur, þær eru hér í múlanum fyrir utan og ofan bæinn. Afar vinsælt myndefni hjá ferðamönnum og jafnvel mér sjálfri.
Ég hef hugsað um það síðustu daga hvort það séu ekki myndalegar ,,þríhellur,, sem Bárarbungan er að hanna um þessar mundir ? Allavega hafa þessar orðið til í einhverjum umbrotum fyrir langa löngu.
En það er annað á myndinni ef grannt er skoðað sem ætti að halda verðandi smölum við efnið.
Ein tvílemba fyrir utan Þríhellurnar og tvær kindur uppí brúninni fyrir innan Þríhellurnar.
Hver þorir að sækja þessar ???' esssaðsú????

Þar sem óðum styttist í fjörið ætla ég að setja hér inn upplýsingar um hvernig við höfum skipulagt smalamennskur og fjárrag hér í Hlíðinni.

Þann 17 september verður smalað inní Hlíð og útá Hlíð.
Þann 18 september verður smalað Múlinn og Oddastaðir.
Þann 19 september verður aðalsmalamennskan Hafurstaða og Hlíðarland.
Þann 20 september verður Vörðufellsrétt á Skógaströnd.
Þann 21 september verður réttað hér heima, dregið í sundur, vigtað og ragað. 
Þann 23 september Mýrdalsrétt og sláturlömbin sótt til okkar.

Eins og alltaf eru allir smalar boðnir hjartanlega velkomnir í fjörið og reyndar allir sem vilja fylgjast með okkur þessa daga. Það hafa allir sem vilja mikilvægt hlutverk í réttunum, inni sem úti.
Gott er að heyra frá ykkur sem hafið tök á því að mæta svo móttökunefndin geti gert viðeigandi ráðstafanir og fóðuráætlanir.
Við lofum góðu fjallalofti, stuði og stemmingu.

Verið hjartanlega velkomin.

Við hlökkum til að sjá ykkur.