23.09.2014 21:16

Réttarfréttir nú eða réttar fréttir.

Smalamennskan á Oddastöðum gekk vel og var fjöldi fjár rekin inn hér heima á fimmtudagskvöldið.

Til að forðast enn meiri þrengsli en venjulega var ákveðið að draga allt ókunnuga fé frá og keyra það í safngirðinguna við Mýrdalsrétt.

Útsýnið var frábært eins og alltaf í Hnappadalnum.......já já það er bara þannig.

Þarna sjáið þið niður í tangana sem eru vestast í Hlíðarvatni.

 

Það getur verið seinlegt að reka út Oddastðahlíðina og þá er gott að hafa fólk bæði uppi og niðri.

Á þessari mynd bera þau Skúli og Skriða við himinn en Freyja sést ekki, kindurnar lalla út bekkina.

 

 

Það var líka alvöru bílalest sem fylgdi smölunum, flestir grænir og sumir jafnvel vinstir grænir.

 

 

Þegar hér er komið við sögu erum við komin fram á Hraunholtahlíðina og allt gengur eins og í sögu.

Jafnvel enginn orðinn smalabrjálaður, annars fann ég nýtt ,,lyf,, við smalabrjálæði.

Stór og safarík krækiber hafa ótrúlega róandi áhrif á smalabrjálaða, geta meira að segja hálf svæft ótrúlegasta fólk.

 

 

Það var góður hópur sem að smalaði með okkur á Oddastöðum.

Á þessari mynd má sjá Ólaf frænda minn færast óðfluga nær toppnum, Þríhellurnar í baksýn.

Þess má þó geta að hann náði ekki toppnum að þessu sinni en hver veit hvað síðar gerist ?

Allavega gekk smalamennskan vel.

 

 

Það var alþjóðlegt yfirbragð í kartöflugarðinum þegar ég, Marie og Dag mokuðum uppúr heilu beði.

Við fórum af stað aðeins seinna í smalamennskuna á Oddastöðum og náðum því góðri upphitun um morguninn.

Þetta var sem sagt samstarf Íslands, Noregs og Danmerkur. Snotra var sérlegur ráðgjafi og leit eftir því að allt færi vel fram.

Fleiri réttarfréttir koma eins fljótt og kostur er............... smalamennskan heima, Vörðufellsréttin, heimaréttin og partýið........... maður lifandi. Og að lokum verður það svo Mýrdalsréttin.