21.10.2014 22:48

Vetrarstemming

 

Já það koma margir fallegir dagar hér í Hlíðinni þó svo það blási á milli.

Verst er þó hvað úrkoman hefur verið mikil og blaut, leiðindaveður fyrir menn og skepnur.

Eins gott fyrir hestamenna að fylgjast með hrossunum og kanna hnjúska.

Folaldshryssurnar fóru í hausthagann sinn í dag og voru heldur betur kátar með það. Þær litu vel út og folöldin höfðu stækkað og breyst heilmikið frá síðustu heimsókn til þeirra.

Ég fékk mér líka göngutúr og skoðaði tryppin sem verið hafa hér inní hlíð. Hjá þeim voru móttökurnar svo einlægar að ég átti í vök að verjast og var næstum því étin. Næstu daga þarf svo að skoða allt stóðið og fara yfir hvort að allt sé ekki eins og best verður á kosið.

Hópur af spennandi tryppum er komin á hús og nú er bara að fara á fullt þegar kindastússið er farið að minnka. Feður þessara tryppa eru m.a Aldur og Arður frá Brautarholti, Feykir frá Háholti og Sparisjóður minn.

Nokkur söluhross eru einnig í þjálfun og má t.d sjá myndband af einni hryssu inná söluflipanum hér á síðunni.

 

 

Þarna er hún Caroline að spjalla við Kveikju Stimpilsdóttur.

Já hann Siggi á Vatni ætti nú bara að vita hvað Kveikja er flott, gullfallegt folald undan Stimplinum.

 

 

Caroline með Hallkelsstaðahlíð í baksýn, aldeilis gott veður.

 

 

Svona gægðist sólin uppfyrir Klifshálsinn fyrir nokkrum dögum síðan, já það eru mörg listaverkin í náttúrunni þessa dagana.

Þarf svo að smella inn sauðfjársamantekt við fyrsta tækifæri.